MÍN ÁSKORUN
  • Upprunaland: ÍSLAND
  • Aldur: 46
  • Fjölskylduaðstæður: Gift með 2 börn og 2 stjúpbörn
  • Nám: Sjúkraliði og skrifstofunám


Ég heiti Gunnþórunn Heidenreich og var metin sem öryrki um þrítugt samhliða því að sinna uppeldi og styðja við börnin mín sem á þeim tíma voru að takast á við áskoranir tengdar ofvirkni og athyglisbresti, en 2009 var ég einnig greind með ofvirkni og athyglisbrest sem fullorðin manneskja. Í dag vinn ég sem sjúkraliði á hjúkrunarheimili. Ég þurfti að fara af vinnumarkaði vegna bak- og stoðkerfisverkja sem orsökuðust af liðskriði vorið 2006 þá 30 ára til að bíða eftir aðgerð sem var ekki framkvæmd fyrr en í október 2007.

Mínar megin áskoranir

• Ógreindur ofvirkni og athyglisbrestur sem olli mér erfiðleikum bæði í námi og mínu daglega lífi.
• Áskoranir heima fyrir, tvö börn sem þurftu minn stuðning og athygli.
• Gagnleysistilfinning, fá örorkudóminn aðeins 31 ára gömul og eftir að hafa farið í gegnum aðgerð.
• Ofþyngd sem orsakaðist af ólíkum meðferðum, lyfjum og endurhæfingu vegna stoðkerfissjúkdóma, skert hreyfigeta og leiðir til þjálfunar.

MÍN LEIÐ

Eftir aðgerðina 2007 fór ég í hefðbundna endurhæfingu í nokkrar vikur og var í kjölfarið metinn öryrki (75%, full örorka) án þess að fá frekari þjálfun sem þýddi einfaldlega að það var metið svo að ég gæti ekki eða þyrfti ekki að vinna og þá aðeins 31 árs gömul. Á meðan ég beið eftir aðgerðinni hafði ég verið á endurhæfingarlífeyrir.

Ég hafði upplifað námserfiðleika bæði í grunnskóla og einnig í námi í heilbrigðisvísindum sem ég hafði farið í eftir grunnskóla. Það að fara í ADHD greiningu gerði mér kleift að fara aftur í nám og ég útskrifaðist úr skrifstofunámi 2013 og var þá búin að setja stefnuna á að vinna á skrifstofu þar sem það hentaði betur fyrir mig þar sem störf við aðhlynningu væru of líkamlega erfið fyrir mig sökum örorkunnar.

Ég var samt alltaf að hugsa um hvernig ég gæti bætt heilsu mína og 2013 skráði ég mig á lífsstílsnámskeið samhliða hlutastarfi (30%) við þjónustu. Árin sem ég var undirlögð af verkjum og í endurhæfingu upplifði ég andlegar áskoranir tengdar vonleysi og þunglyndi og hafði þyngst verulega. Sem framhald af lífsstílsþjálfuninni fór ég í hjáveituaðgerð sem hjálpaði mér að léttast um 40 kíló sem hafði veruleg jákvæð áhrif á líkamlega heilsu mína, ég gat allt í einu stundað nánast hvaða hreyfingu sem er, hætt á nær öllum lyfjum og leið mun betur andlega. Nú tek ég bara inn hormón og ADHD lyfin mín auk þess að taka inn fullt af nauðsynlegum vítamínum.

Lífsstílsbreytingarnar og bætt líkamlegt ástand og líðan urðu til þess að ég ákvað að láta drauminn rætast og fór aftur að vinna í aðhlynningu 2017 í heimaþjónustu enda hafði ég fljótlega gert mér grein fyrir að skrifstofuvinna var ekki það sem mig langaði að gera í lífinu. Ég ákvað í kjölfarið að fara aftur í nám 2018 og lauk sjúkraliðanámi 2021 samhliða því að vinna nær full starf á hjúkrunarheimili þar sem ég sinni nú fullu starfi.

MINN ÁRANGUR

Ég held að maður þurfi að vera meðvitaður um að maður reddar ekki heilsunni 1,2 og þrír, allir litlu sigrarnir skipta máli, það að fá ADHD greininguna og lyf í kjölfarið hjálpaði mér að byggja upp seiglu og þolinmæði, það að öðlast bætta heilsu er langhlaup. Minn persónulegi styrkleiki er „að ég gefst ekki upp“ ég er bæði þrjósk og bý yfir seiglu.

Aldrei á meðan á þessu stóð, setti ég mér einhver ákveðin markmið, en ég tók eftir og fagnaði hverjum sigri t.d. að geta slegið blettinn hjálparlaust og farið í fjallgöngu og nýlega að geta stundað golf með eiginmanninum.

Mér finnst stundum að fólkið í kringum mig hafi ekki fylgt mér eftir, það áttar sig ekki á þeirri breytingu sem er orðin á mér og er að hafa áhyggjur af því að ég fari of geyst. Það er óþarfi, ég þekki vel mín mörk og finn hvernig ég get haldið áfram að eflast enn frekar og takast á við meira krefjandi verkefni, dag frá degi.