Mín áskorun
Ég er frá Spáni, er 27 ára og á 9 ára dóttur. Þar sem ég er af rómafólki komin þá giftist ég mjög ung, var ekki orðin 17 ára. Ég eignaðist dóttur mína 18 ára gömul. Á meðan ég var gift föður dóttur minnar hætti ég að læra og var ekki í vinnu. Þáverandi eiginmaður minn taldi það vera mitt hlutverk og skyldu sem eiginkonu að sjá um heimilið og fjölskylduna.
Áður en ég gifti mig fékk ég ágætis einkunnir í skólanum og naut þess að lesa, en heima var gert grín að mér vegna þess að ég bað um bækur til að lesa.
Mínar helstu áskoranir
• Ung dóttir
• Skortur á menntun og starfsreynslu
• Skortur á fjármagni og félagslegum stuðningi
Mín Leið
Þegar ég var 23, eftir 7 ára hjónaband, ákvað ég að skilja, þar sem ég þoldi ekki afbrýðisemi fyrrverandi eiginmanns míns og hvernig hann kom fram við mig. Þegar ég gerði það sneri öll fjölskyldan við mér baki og mér var hótað. Til þess að lifa eðlilegu og friðsælu lífi flutti ég til annarrar borgar þar sem ég átti vin sem bauðst til að hjálpa mér.
Þar byrjaði ég að koma undir mig fótunum, ég fékk vinnu við ræstingar (óskráð vinna án almannatrygginga) í heimahúsum, þar sem mér var mismunað vegna uppruna. Ég sinnti þrifum á morgnana á meðan dóttir mín var í skólanum og ég hjálpaði henni eins og ég gat með heimavinnuna eftir hádegi.
Eftir eitt ár þá ákvað ég að reyna að breyta aðstæðum mínum þannig að ég hefði efni á því að leigja eitthvað stærra en pínulitla einstaklingsíbúð. Markmið mitt var að fá fullt starf með launum og almannatryggingum til að geta skapað mér og dóttur minni betra líf.
Minn árangur
Þegar ég skráði mig sem atvinnuleitanda sagði starfsráðgjafinn mér frá stofnun sem hjálpaði spænsku rómafólki. Hann gaf mér góð ráð um hvers konar fjárhagsaðstoð ég ætti rétt á sem einstæð móðir og hvað skref ég þyrfti að stíga til að fá vinnu.
Þökk sé hjálp þeirra ákvað ég að nota þekkingu mína á matreiðslu (sem ég lærði af mömmu minni) og aflaði mér réttinda í matreiðslu. Í kjölfarið fór ég að vinna sem aðstoðarmaður í eldhúsi í skólamötuneyti þar sem ég er að vinna í dag.
Til að ná jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs er dóttir mín í barnagæslu (fyrir skóla) frá hálf átta til níu á morgnana, síðan fer hún í skólann klukkan níu. Eftir að kennslu lýkur borðar hún í mötuneyti skólans frá tvö til fjögur og tekur síðan þátt í frístundastarfi. Boðið er upp á frístundastarf til klukkan sex alla daga nema föstudaga. Í frístund eru börnin í skólanum í fjölbreyttum verkefnum auk þess að fá aðstoð við heimanám.
Fjárhagslegt sjálfstæði mitt hefur bætt lífsgæði okkar.